Senn vorar!

Það er nú einhvern veginn þannig að þegar það styttist í vorið þá kemur yfir mig þörf til að blogga. En því er ekki að neita að Facebook hefur tekið svolítið yfir þetta annars ágæta moggablogg. Hef nú ekki margt til málanna að leggja annað en það að með vorinu förum við að byggja á Hólavatni og þá verður sko gaman að vera til.

Frábær skráning!

Verð að segja ykkur frá því hvað skráningin á Hólavatn gengur vel. Það er búið að skrá í eina viku og það eru komin 44 börn en í fyrra voru hundrað krakkar svo það er næstum því komin helmingur af því sem var þá á fyrstu vikunni. Þetta er alveg frábært og bara þakkarvert. Til að fylla alla flokka sumarsins þyrftu tæplega 150 börn að skrá sig á Hólavatn í sumar.

Annars er vorhátíð í Sunnuhlíð á sunnudaginn kl. 14-17 og þar vonumst við til að skrá fleiri börn og það verður flott dagskrá og heilmikið um að vera. Allir að mæta og prófa nýja trampólínið sem við ætlum að setja upp fyrir utan.

Svo má svona í lokin segja frá því að á einni viku er búið að skrá tæplega 2000 börn í allar sumarbúðir KFUM og KFUK.


Frábær byrjun!

Í dag var vorhátíð KFUM og KFUK haldin hátíðleg á Holtavegi í Reykjavík. Þessi hátíð markar líka upphaf skráningar í sumarbúðir og á leikjanámskeið hjá KFUM og KFUK. Ég hef heyrt í þeim sem voru á hátíðinni og eru allir þeir sem ég hef heyrt í sammála um að vel hafi tekist til og stemmningin verið góð.

Það eru alla vega frábærar fréttir að á þessum fyrsta skráningardegi voru skráð yfir 1000 börn og skráning á Hólavatn var líka talsvert meiri á fyrsta degi heldur en áður og vonandi er það fyrirboði um það sem koma skal fyrir sumarið. Ef allir flokkar á Hólavatni ættu að fyllast í sumar þá þurfum við að fá tæplega 150 börn en í fyrrasumar voru þau um eitt hundrað. Við erum vitanlega að vona að börnin frá því í fyrra hafi verið svo ánægð að þau vilji koma aftur og svo erum við líka á fullu að reyna að gera aðstöðuna betri og betri. Sem dæmi um nýja hluti sem verða í sumar eru

  • Ný fimm metra löng rennibraut sem tengir saman efra og neðra leiksvæði
  • Tvær nýjar og flottar rólur
  • Jafnvægisslá á gormum með pöllum á endanum svo maður geti reynt að hrista hinn af.
  • Enn meira úrval af leikarafötum og búningum
  • Trampólín 4.3 metra með öryggisneti

Þar að auki er búið að auka enn á öryggið með því að endurnýja rafmagnstöfluna, setja upp neyðarlýsingu, draga nýjar lagnir í eldvarnarkerfið og setja upp ný ljós á neðri hæðinni.

Allt er þetta gert til þess að auka líkurnar á því að börnin fari glöð og ánægð heim og að foreldrarnir viti að við viljum reyna okkar besta til að tryggja öryggi og vellíðan barnanna.

Áfram HólavatnCool


Guði sé lof fyrir nýtt starf!

Hehe, datt í hug að láta þennan frasa vera yfirskrift á þessu bloggi mínu þar sem að ég er í alvöru Guði þakklátur fyrir að vera búinn að skrifa undir ráðningarsamning hjá KFUM og KFUK á Íslandi. Ég mun byrja í nýrri vinnu þann 1. ágúst 2008 og ég held að titillinn sé "Svæðisfulltrúi KFUM og KFUK á norðurlandi"

Bíddu er það fullt starf? er algengasta spurningin sem ég hef fengið frá þeim sem frétt hafa af ráðningunni en miðað við þörfina, allar hugmyndirnar og væntingarnar er ég farin að huga að forgangsröðun á hlutum en hér á Akureyri verður þá til svona mini-þjónustumiðstöð fyrir deildarstarf og sumarbúðir á norðurlandi.

Ég veit að ég á eftir að sakna gamla vinnustaðarins, Oddeyrarskóla, því þar er frábært samstarfsfólk og inn á milli ágætis nemendur. Djók....allir nemendur geta verið frábærir.

Annars er ég bara að vonast eftir því að sjálfboðaliðar komi í kippum til mín og óski eftir því að vera með í frábæru starfi næsta vetur og það eru sko hlutverk fyrir alla. Gamla og útbrunna kfummara og unga og ferska unglinga og allt þar á milli. Spennandi.

Annars er það að frétta af Hólavatni að það er búið að skipta um rafmagnstöflu og við erum langt komin með að setja upp neyðarlýsingu og skipta um lagnir í eldvarnarkerfinu. Fórum á miðvikudaginn fyrir páska og byrjuðum og svo aftur á mánudaginn og svo er stefnan sett á laugardaginn ef einhver vill koma með.

Jæja nóg í bili. Ég tek á móti góðum hugmyndum og árnaðaróskum hér á blogginu næstu 14 daga við þessa færslu og svo er bara að vona að ég fari nú að vera duglegri við að skrifa enda alveg að koma sumar og þá fara hlutirnir að gerast.


Svona svona segðu fyrirgefðu!

Það er mannlegt að gera mistök. Ég held að ummæli Friðriks hafi verið sögð í fljótfærni eftir mikið spennufall og í raun finnst mér ekki ástæða til að gera mikið úr þeim. Hins vegar fannst mér fyndið að fylgjast með viðtalinu í Kastljósi vegna málsins og ég verð að viðurkenna að þar sem ég hef reynslu sem kennari í grunnskóla fannst mér það minna mig óþægilega mikið á það þegar maður tekur tvo nemendur í spjall eftir átök í frímínútum. „Svona strákar, við skulum vera vinir og reyna bara að gleyma þessu. Svona, segðu fyrirgefðu....Flott aftur í tíma“


mbl.is Mikil umræða um ummæli Friðriks Ómars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá kynjafræði

Er að stúdera meðal annars kynjafræði þessa dagana í HA og varð bara að setja þetta myndband hér inn til þess að geta gripið til þess.


Skólamálaumræða

Þessi frétt er í svipuðum anda og sú skólamálaumræða sem fram fer hér á landi. Gífuryrði um hvað megi og hvað megi ekki kenna eða segja í grunn- og leikskólum landsins. Framsögumenn þeirra aðila sem vilja afmá allt sem minnir á trúariðkun út úr skólunum hafa jafnvel gefið í skyn að ef þeirra sjónarmiðum verði ekki mætt eigi íslenska ríkið hættu á að fá kæru á sínar hendur.

Sjálfur er ég kennari og veit að í mínum verkahring er að miðla þekkingu til nemenda minna en ekki hafa mótandi áhrif á lífsskoðanir þeirra. En þekking mótar og það sem verra er að það gerir vanþekking einnig. Með þekkingu get ég myndað mér skoðun á viðfangsefni og valið mér viðhorf í framhaldi af því. Því má segja að ferlið „menntun“ sé grunnurinn að því að við getum sýnt umburðarlyndi og forðast fordóma.

Skólastarf er samfélagsstarf og tekur mið af því umhverfi sem það þjónustar. Lífsskoðanir og hefðir samfélagsins eru órjúfanlegir þættir skólastarfsins og verða ekki teknar úr sambandi líkt og að skólinn geti svifið í lausu lofti án jarðsambands við heimilin og nærsamfélagið. Í því sambandi verður fyrst og fremst að gæta jafnræðis og virða ólíkar lífsskoðanir og meta margbreytileikann.

Það felst engin virðing í því að sópa öllu undir teppið og láta eins og það sé ekki til. Virðingin er falin í opinni umræðu og upplýsingu um það sem er í boði með áherslu á þá þætti sem sameina okkur, en ekki með sífelldum rógburði um þá sem eru annarrar skoðun.


mbl.is Dýrkeypt lögsókn vegna sokkabanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallegt að vetri sem sumri

Laugardaginn 1. des. s.l. fór ég fram á Hólavatn til að ganga frá fyrir veturinn. Í haust hafa verið hópar frá Verkmenntaskólanum og Menntaskólanum ásamt ýmsum öðrum hópum en nú er búið að loka í bili. Það var fallegt um að litast á Hólavatni og þó ég þyrfti að ganga frá hliðinu get ég ekki sagt annað en að ég hafi notið þess að koma á þennan yndislega stað. Til gamans setti ég nokkrar myndir sem ég tók í Hólavatnsalbúmið hér til hliðar.

Samræður eru tvíhliða!

Ágæt ábending frá formanni SAMFOKs um að auka megi samræðu skóla við foreldra en þó hefði ég kosið ef hún hefði sagt að auka megi samræðu milli skóla og foreldra. Ástæðan er sú að samræður af þessum toga eru tvíhliða og ég held að foreldrar gætu oft verið virkari í samskiptum við skóla barna sinna.

Í þeim skóla sem ég starfa við er samstarf við foreldra mjög mikið og virkt og foreldrar eru virkir þátttakendur í fjölmörgu sem fram fer í skólanum. Því verður að gæta sín á alhæfingum í þessu sambandi og hvetja frekar þá til dáða sem gera vel frekar en að vera alltaf að benda á það sem miður fer í skólastarfi.

Við í skólanum erum stundum réttilega gagnrýnd fyrir að benda of mikið á það sem miður fer hjá nemendum og tala of sjaldan um þegar vel gengur. Mér sýnist SAMFOK vera fallið í sömu gryfju þar sem ég man varla eftir jákvæðri frétt frá þeim um skólastarf.

Koma svo SAMFOK eflum hið jákvæða og látum það útrýma hinu neikvæða.


mbl.is Skortur á samræðu skóla við foreldra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur dagur!

Í dag var góður dagur. Í hádeginu fór ég ásamt tveimur félögum mínum úr Hólavatnsstjórninni á veitingastaðinn Friðrik V. til að taka við styrk úr Menningarsjóði KEA. Við stefnum nefnilega á það að fara byggja og af því tilefni fengum við 1.750.000 kr. í styrk. Þetta þýðir að við erum komin með um 4 milljónir í skálasjóð en þann 1. nóv. síðasta kom einmitt stofnframlag í þennan sjóð upp á 2 millur. Stjórnin ákvað svo að leggja 250.000 af rekstrarfé sumarbúðanna í sjóðinn á þessu ári, (þrátt fyrir eldhúsframkvæmdir) og svo þessi upphæð í dag. Húsið sem á að byggja er enn á hönnunarstigi og hér neðar á blogginu má finna tengingu á síðu þar sem getur að líta nokkrar hugmyndir sem ég hef verið að leika mér með. Teikning númer 5 er sú nýjasta en hún gerir ráð fyrir fimm 6 manna herbergjum og kvöldvökusal á annarri hæð yfir fjórum endaherbergjum og gangi. Það eru nokkur atriði eða forsendur sem vert er að hafa í huga við hönnun hússins. Að mínu mati er það eftirfarandi:

  • Framtíðar gistirými þarf að vera á bilinu 30 - 40 rúm.
  • Allt gistirými þarf að vera á jarðhæð til að tryggja öruggustu flóttaleiðir.
  • Miðað verði við 6 í herbergi sem verður að lágmarki að vera 12 fm.
  • Æskilegt er að í starfsmannaherbergi sé snyrting og sturta.
  • Í framtíðinni þarf að koma nýr salur fyrir morgunstundir og kvöldvökur en með því losnar um borðsalinn svo þar getur verið föst uppröðun.
  • Hver snyrting sé með sér hurð og vask þar inni, sem sagt, ekki skilrúmaklósett.
  • Vaskar séu inn á herbergjum svo hægt sé að bursta tennur inn á herbergjum.
  • Tenging við eldra hús sé eðlileg og raski skipulagi eldra húss sem minnst.

Þeir sem vilja koma með álit eða jákvæða gagnrýni eru hvattir til að tjá sig um málið og eins má það alveg fréttast að við leitum að nokkrum milljónum í viðbót við þessa góðu byrjun.

Þessi færsla er tileinkuð hinum risasmáu sumarbúðum að Hólavatni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband