Sund fyrir heilsuna!

Já eru ekki allir alltaf að hugsa um heilsuna. Ég er einn af þeim sem er alltaf að leita að réttu aðferðinni við að halda þyngdinni í skefjum og hef nú svo sem prófað ýmislegt í þeim efnum. Í dag dró konan mig í sund og maður hefur jú oft heyrt talað um hve heilsusamlegt það er að stunda sund. Ég ákvað að gera smá vísindalega könnun á því hver árangurinn getur verið af einni sundferð og vigtaði mig því bæði áður en ég fór ofaní og líka þegar ég kom uppúr. Viti menn, á klukkutíma hafði ég lést um 350 gr. og í ljósi þessa góða árangurs hef ég nú ákveðið að fara í sund tvisvar á dag í tvær vikur og ef árangurinn verður með sama hætti og í dag mun ég léttast um tæp tíu kíló tveimur vikum. Já ég veit þetta hljómar ótrúlega en maður verður jú að reyna.

Ég vil samt taka það fram til að fyrirbyggja misskilning að ég fór aðeins í barnalaugina og heita pottinn og synti ekki neitt því ég vil nú alls ekki fara of geyst af stað í þessu heilsuátaki mínu.


Fyrst fór ég í 10. bekkjarferð fyrir 19 árum og 19 kg!

En á morgun fer ég í mína sjöttu ferð með tíunda bekk Oddeyrarskóla. Ég er sem sagt að mæta í fyrramálið til vinnu á ný eftir sex mánaða fæðingarorlof og ég byrja náttúrulega fyrsta daginn á því að hoppa upp í rútu klukkan átta og fara í fjögurra daga ferðalag með tíunda bekk. Á næstu 80 klst mun ég fara í Kringluna og Smáralind, fara í Lúxusbíó, keilu, Bláa lónið, Adrenalíngarðinn, Surtshelli, fossahopp og rafting. Ég mun borða í Staðarskála, á Stjörnutorgi í Kringlunni, í Smáralind, Bláa lóninu, Ruby Tuesday, Húsafelli og Sauðárkróki. Ég mun þjónusta og stjórna 24 unglingum með öllu því sem ég á til og leggja mitt að mörkum til að gera þessa ferð ógleymanlega........ Ekki þannig að ég verði ógleymanlegur heldur ferðin. wish me luck,,,,,,,,,,I'll need it!!

Á meðan verður Hólavatn á hold þó svo að ég vonist eftir því að einhver reddi ráðskonu í fyrsta flokk meðan ég er í burtu. 11.-15. júní ef þú ert á lausu. Annars eru komnar nýjar myndir af stöðu mála í Hólavatnsalbúmið. 


Upphaf skólagöngu!

Í dag byrjaði yngri dóttir mín í leikskóla. Dagurinn í dag markar því upphafið á 15-20 ára skólagöngu. Ég er mjög ánægður með móttökurnar og skipulagið á leikskólanum. Þetta er lítill einnar deildar leikskóli með 30 börnum og foreldrahandbókin sem við fengum er vitnisburður um metnaðarfullt og jákvætt starf þar sem áhersla er lögð á sjálfshjálp, aga og virðingu. Nú tekur við aðlögunarvika og við Elísabet verðum því saman á leikskóla þessa síðustu viku mína í feðraorlofinu. Þriðjudaginn eftir Hvítasunnu fer ég svo með 10. bekk í fjögurra daga ferðalag með pakkaðri dagskrá. Alveg mögnuð tímasetning að mæta aftur til vinnu til að fara í ferðalag og svo er bara skólaslit og ein vika í frágang og undirbúning. En á morgun er líka merkilegur dagur fyrir Hólavatn því þá koma nýju hjólabátarnir til landsins. Wink

Innréttingin komin upp!

Jæja þetta mjakast allt saman áfram á Hólavatni og í dag var lokið við að setja eldhúsinnréttinguna upp. Þá er eftir að flota gólfið, dúkleggja, flísaleggja milli bekkja, tengja raftæki, setja upp ljós og sitt hvað fleira. En mikið er Guð nú góður að gera þetta allt mögulegt. Nýjar myndir eru í albúminu og vinnuferðir alla frídaga fram að fyrsta flokki sem hefst mánudaginn 11. júní. Þannig að ef þú vilt koma með þá er það velkomið.

Tæknileg mistök!

Nú get ég ekki lengur orða bundist og hef ákveðið að gerast sérstakur ráðgjafi framsóknarflokksins og tel að ef þeir hefðu farið að mínum ráðum þá hefði það verið fyrsta skrefið í átt að endurheimtu fylgi og hugsanlegt upphaf af nýrri sókn sem þessi flokkur þarf á að halda. Með öðrum orðum langar mig í nokkrum orðum að lýsa því hvað ég tel að hefði verið rétt viðbrögð framsóknar við úrslitum kosninganna.

Úr ræðu Jóns formanns ef hann hefði leitað til mín:

„Úrslit kosninganna eru vissulega vonbrigði fyrir framsóknarflokkinn og framtíð þessa lands. Niðurstöðurnar undirstrika engu að síður þá staðreynd að framsóknarflokkurinn er landsbyggðarflokkur og sem slíkur hefur hann beitt sér fyrir uppbyggingu víða á landsbyggðinni, m.a. með því að flytja opinber störf og stofnanir út á land. Þetta endurspeglar rúmlega 20% meðatalsfylgi flokksins í Norðvestur, Norðaustur og Suðurkjördæmum. Þessi áherslumál flokksins í uppbyggingu atvinnumála og bættum samgöngum eru greinilega ekki þau mál sem mest brenna á þeim sem búa á suðvesturhorni landsins og fylgið því slakt. Því hörmum við það framsóknarmenn að geta ekki áfram átt þátt í ríkisstjórn þessa lands og vonum að sá tími sem framundan er verði þjóðinni ekki of dýrkeyptur og að áfram verði sköpuð skilyrði svo unnt sé að halda byggð í öllum landshlutum okkar dýrmæta lands. Við framsóknarmenn þurfum áfram að berjast og vinna menn til fylgis við stefnu okkar og framtíðarsýn."

 Og hananú. Með þessu móti hefði Jón getað gengið stoltur frá borði ríkisstjórnar og þjóðin hefði borið virðingu fyrir því að flokkurinn hefði bein í nefinu til að horfast í augu við blákaldar staðreyndir án þess að vera hræddir við að missa völdin. En því miður eru framsóknarformennirnir að skæla við fjölmiðla um trúnaðarbresti og óheiðarleika....búhú.... svo eru menn hissa á hnignandi gengi....

Þetta verður eina pólítíska færsla mín í tengslum við þessar kosningar.Shocking 


mbl.is Jón Sigurðsson: Staðfestir trúnaðarbrest milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að velja rétta litinn!

Síðustu vikurnar hef ég verið að vinna að undirbúningi þess að mála húsið okkar. Ég er búinn að skrapa, múra, þvo og grunna og nú er sem sagt komið að því að mála og þá stendur maður frammi fyrir þeim vanda að velja réttu litina. Húsið er núna gult og grænt og við hjónin erum alveg sammála um að þeir litir verði ekki áfram. Hvort yfirfæra megi það yfir á kosningar veit ég ekki en reyndar er Steingrímur rauði kenndur við græna litinn sem fram til þessa hefur nú verið í eigu framsóknarmanna. En hvað um það, ég ætla alla vega ekki að mála húsið blátt eða rautt eða grænt svo ekki verði nú hægt að líta á það sem stuðningsyfirlýsingu við neinn svona í aðdraganda kosninga.

Ég var nokkuð ánægður með mig í gær þegar frúin kom heim úr vinnunni því þá var ég búinn að mála með þrem mismunandi litum á einn vegginn en henni leist ekkert á þessa liti og á endanum var ég sammála því að fara og kaupa eins og tvær prufur í viðbót. Ég var nú ekkert allt of kátur í málningarbúðinni að þurfa standa í þessum snúningum en það var mér til happs að hitta þar kunningja minn sem var einmitt í sömu erindagjörðum og ég. Hann var búinn að prófa fimm liti og var mættur til að kaupa tvo í viðbót. Ég nikkaði til hans og spurði í léttum tón, „Var konan ekki sátt? “ „Æi þær eru nú fimm og þær voru sammála um einn litinn en sendu mig samt til að kaupa tvo liti í viðbót sem þær sáu á litaspjaldinu.“ Bíddu fimm konur sagði ég með augu á stærð við undirskálar. Já ég bý sko í raðhúsi..........

Ég gekk út í bíl með tvær prufudósir og bros á vör. Við hjónin höfum aldrei átt í erfiðleikum með að koma okkur saman um hlutina og fyrst ég bý í einbýli skal ég glaður fara eins margar ferðir og þarf þar til rétti liturinn er fundinn.

 Þeir sem hafa áhuga fyrir því að tjá skoðun sína á prufunum geta litið við um helgina og sagt álit sitt. Við áskiljum okkur rétt til að hafa að engu ábendingar annarra og ætlum að ráða þessu sjálf líkt og við ráðum því sjálf hvað við kjósum. 


Nú verður sko grillað!

grillÉg má til með að deila því með ykkur að ég var að eignast nýtt grill. Ég var búinn að undirstinga frúnna með að gefa mér nýtt grill í sumar í afmælisgjöf en svo var svona ljómandi gott tilboð í Nettó og 20% afsláttur fyrir KEA korthafa þannig að ég nefndi það hvort væri ekki bara sniðugt að geta notið gjafarinnar í allt sumar þó svo að ég eigi ekki afmæli fyrr en í júlí. Auðvitað tók frúin vel í það enda gæðakona svo að um helgina fór ég og keypti grillið, skellti því á kerruna og var svo góða tvo tíma að púsla því saman. Í gærkvöldi var svo grillað dýrindis lambakjöt og bakaðar kartöflur, gráðostafylltir sveppir og sósan líka hituð á fínu gashellunni. Algjör snilld og útlit fyrir gott grillsumar og ekkert mál að taka á móti gestum því það er pláss á grillinu fyrir mat handa fleirum.


Gott dagsverk á degi verkalýðsins!

Já það kom sér aldeilis vel að fá frídag í dag og af því tilefni var farin vinnuferð að Hólavatni og voru níu verkamenn að störfum og átta börn að leik. Nú er búið að setja nýja útihurð og glugga, búið að klæða í loftið, langt komið að klæða veggii, búið að þrífa Hólabæ, og ýmislegt fleira gott sem gert var í dag. Myndirnar tala sínu máli og eru komnar inn í albúmið en það var magnað veður, sól og blíða.

Þetta er ótrúlega skemmtilegt en verst er að dagarnir eru svo fljótir að líða að þeir eru búnir áður en maður veit af.


Gott er að eiga góða granna!

Í dag var farin ein enn vinnuferðin að Hólavatni og að þessu sinni var lokið við að klæða plötur upp í loftið (sjá myndaalbúm) og reyndar voru svefnsalirnir líka þrifnir og gerðir klárir fyrir sumarið enda aðeins sex vikur þar til fyrsti flokkur hefst og því ekki allt of margir dagar til að ljúka þeim verkum sem eftir eru. En það hefur sannarlega sýnt sig á síðustu vikum hve gott það er að eiga góða granna. Sveinn og Guðný sem búa á bænum Vatnsenda hinum megin við vatnið bjóða nefnilega alltaf vinnumönnum í hádegismat. Þetta kemur sér mjög vel þar sem að eldhúsið okkar er ekki í nothæfu ástandi.Gasp  Í dag fengum við fínasta Lasagne og kaffi og súkkulaði á eftir. Guð launi góðum nágrönnum og vinum Hólavatns því svangur verkamaður er sjaldnast til gagns.

Bosch Sphera23 1500W

Já nú er komið að því að ég blogga um þessa ryksugu..... Ég hef verið heimavinnandi í fimm mánuði eins og alþjóð veit og á aðeins einn mánuð eftir. Um svipað leyti og ég byrjaði í orlofi fór ég í leiðangur til að festa kaup á nýrri heimilisryksugu. Mér fannst einhvern veginn við hæfi í tilefni af 10 ára hjúskapartíð okkar hjóna að endurnýja ryksugu og gaf ég mér talsverðan tíma í að vega og meta kosti og galla á þeim ryksugum sem í boði voru og vissulega var verðmiðinn einn af þeim kostum sem prýddi þessa sem varð fyrir valinu en það er líka eini kosturinn sem er eftir.

 Sölumaðurinn í Byko sem ég efast reyndar um að hafi ryksugað með fleiri ryksugum en ég um ævina mælti með þessari Bosch ryksugu. Hún er lítil og nett og því auðvelt að draga hana................ já einmitt.......  hún er svo lítil og nett að þegar maður ætlar að snúa við og stefna í aðra átt þá hoppar hún upp á afturlappirnar eða legst jafnvel alveg á kviðinn eins og hún sé hvolpur sem haldi að ég sé að leika við hana þegar í toga í ólina. Fáránleg hönnun þar sem að barkinn kemur upp úr henni miðri þá tollir hún ekkert á hjólunum þegar snúið er við heldur þarf maður í sífellu að vera að sparka í hana og velta henni til baka. Lítil og nett já.................. Merkilegt að lítil ryksuga geti verið með svona þykkan haus að það er ekki hægt að troða honum undir alla ofna í húsinu. Gamli ryksuguhausinn komst allstaðar undir en ekki þessi, hann er feitur.

Svo er reyndar reynsluleysi mínu um að kenna þegar kemur að ryksugukaupum að ég gleymdi að spyrja hve löng snúran væri í apparatinu, en einhvernveginn hélt ég að það væri bara sjálfgefið að maður vill ryksuga meira en eitt herbergi í einu án þess að þurfa að rífa hana úr sambandi og finna nýja innstungu.

Að síðustu er það svo helsti ókosturinn sem ég reyndar uppgötvaði ekki fyrr en eftir að hafa notað ryksuguna í nokkur skipti en það er útblásturinn. Af hverju heldur framleiðandinn að ég, notandinn hafi áhuga fyrir að fá rúmlega 40 gráðu heitan blástur undir afturendann á mér á meðan ég er að ryksuga. Er virkilega svona kalt í Þýskalandi að það sé þörf fyrir extra kyndingu á meðan maður ryksugar. Í fyrstu hélt ég að þetta væri bara svona erfitt að það væri bara eðlilegt að svitna við það að ryksuga en svo fór ég að átta mig á því að það er bara eins og einhver standi fyrir aftan mann með hárþurrku á heitasta blæstri og puði upp við óæðri endann á manni. Vá maður hvað þetta er pirrandi græja...........Fær í mesta lagi eina stjörnu fyrir að vera falleg á litinn.

 Hér eftir verður bara rykmoppað.Cool


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband