19.4.2007 | 20:37
Vinnuferð á fyrsta degi sumars!
Dagurinn var tekinn snemma og lagt af stað klukkan átta. Fjórir vaskir menn fóru saman til vinnu að Hólavatni á þessum fyrsta degi sumars og höfðu menn á orði að fjórar gráður í mínus væri nú ekki alveg þeirra hugmynd um sumar. Það átti eftir að versna því þegar við komum frameftir kom í ljós að gleymst hafði að slá inn örygginu fyrir kyndinguna um síðustu helgi og var því nánast við frostmark í húsinu. Burr Burr. Davíð var svo kalt að hann kveikti upp í gasgrillinu inn í sal til að kynda húsið en svo hlýnaði eftir sem leið á daginn. Með í för að þessu sinni voru auk mín, Hreinn Andrés sem situr í stjórn Hólavatns, Davíð mágur minn sem er rafeindavirki og snillingur í raflögnum og Geir Ármann Hólvetningur sem var alltaf á Hólavatni þegar hann var gutti og er nýútskrifaður húsasmiður og mjög áhugasamur um uppbygginguna að Hólavatni. Svo kom Þórður "yfirsmiður" í heimsókn með strákana sína tvo og reyndi að skipa okkur fyrir en við létum hann bara hella upp á kaffi og sendum hann svo aftur heim. Að loknum degi var búið að rífa norðurgluggann úr og loka gatinu, einangra, plasta, festa rafmagnsdósir og rör á milli og grindin komin í loftið að mestu. Í næstu ferð verður því komið að því að klæða plötur í loft og á veggi. Nokkrar nýjar myndir eru komnar inn í Hólavatnsalbúmið hér til hliðar.
Athugasemdir
Þótt ég hafi enn ekki gerst svo frægur að koma á Hólavatn (því miður), Vatnaskógur hefur átt hug minn allan, þá fylgist ég spenntur með þessum breytingum. Þú verður að vera duglegur að setja inn myndir! Óska ykkur alls hins besta.
Þráinn (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 18:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.