27.4.2007 | 10:52
Bosch Sphera23 1500W
Já nú er komið að því að ég blogga um þessa ryksugu..... Ég hef verið heimavinnandi í fimm mánuði eins og alþjóð veit og á aðeins einn mánuð eftir. Um svipað leyti og ég byrjaði í orlofi fór ég í leiðangur til að festa kaup á nýrri heimilisryksugu. Mér fannst einhvern veginn við hæfi í tilefni af 10 ára hjúskapartíð okkar hjóna að endurnýja ryksugu og gaf ég mér talsverðan tíma í að vega og meta kosti og galla á þeim ryksugum sem í boði voru og vissulega var verðmiðinn einn af þeim kostum sem prýddi þessa sem varð fyrir valinu en það er líka eini kosturinn sem er eftir.
Sölumaðurinn í Byko sem ég efast reyndar um að hafi ryksugað með fleiri ryksugum en ég um ævina mælti með þessari Bosch ryksugu. Hún er lítil og nett og því auðvelt að draga hana................ já einmitt....... hún er svo lítil og nett að þegar maður ætlar að snúa við og stefna í aðra átt þá hoppar hún upp á afturlappirnar eða legst jafnvel alveg á kviðinn eins og hún sé hvolpur sem haldi að ég sé að leika við hana þegar í toga í ólina. Fáránleg hönnun þar sem að barkinn kemur upp úr henni miðri þá tollir hún ekkert á hjólunum þegar snúið er við heldur þarf maður í sífellu að vera að sparka í hana og velta henni til baka. Lítil og nett já.................. Merkilegt að lítil ryksuga geti verið með svona þykkan haus að það er ekki hægt að troða honum undir alla ofna í húsinu. Gamli ryksuguhausinn komst allstaðar undir en ekki þessi, hann er feitur.
Svo er reyndar reynsluleysi mínu um að kenna þegar kemur að ryksugukaupum að ég gleymdi að spyrja hve löng snúran væri í apparatinu, en einhvernveginn hélt ég að það væri bara sjálfgefið að maður vill ryksuga meira en eitt herbergi í einu án þess að þurfa að rífa hana úr sambandi og finna nýja innstungu.
Að síðustu er það svo helsti ókosturinn sem ég reyndar uppgötvaði ekki fyrr en eftir að hafa notað ryksuguna í nokkur skipti en það er útblásturinn. Af hverju heldur framleiðandinn að ég, notandinn hafi áhuga fyrir að fá rúmlega 40 gráðu heitan blástur undir afturendann á mér á meðan ég er að ryksuga. Er virkilega svona kalt í Þýskalandi að það sé þörf fyrir extra kyndingu á meðan maður ryksugar. Í fyrstu hélt ég að þetta væri bara svona erfitt að það væri bara eðlilegt að svitna við það að ryksuga en svo fór ég að átta mig á því að það er bara eins og einhver standi fyrir aftan mann með hárþurrku á heitasta blæstri og puði upp við óæðri endann á manni. Vá maður hvað þetta er pirrandi græja...........Fær í mesta lagi eina stjörnu fyrir að vera falleg á litinn.
Hér eftir verður bara rykmoppað.
Athugasemdir
Um jólin í hitt-eð-fyrra fjárfestum við Brynhildur í FC9152 frá Philips (http://ht.is/index.php?sida=vara&vara=FC9152), þetta er algjör eðalgræja, létt og meðfærileg, rosalegur sogkraftur, þessi fíni parket haus, lávær á á lægri stillingunum (sem eru alveg nægilegar í mörgum tilfellum), með langa snúru (9 metra takk fyrir), og á stórum gúmmihjólum. Ekkert mál að hækka og lækka skaftið án þess að beygja sig, ekkert mál að losa barkann frá og þú getur parkað skaftinu á ryksugunni sjálfri til að spara pláss í geymslu
Mæli innilega með henni.
Sibbi (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 11:10
Góður Sibbi. Hefði reyndar seint veðjað á að þú ættir einhverntímann eftir að gefa ryksugu meðmæli svona þegar ég rifja upp bílskúrinn á Þingholtsbrautinni.
Jóhann Þorsteinsson, 27.4.2007 kl. 11:30
Eftir margar ógeðfelldar ryksugur í minni eigu gafst ég upp og fjárfesti í Rainbow. Kvarta ekki yfir henni, nema hvað hún rauf illbætanlegt skarð í bankareikninginn minn.
Ingvar Valgeirsson, 27.4.2007 kl. 19:45
Lítil, rauð og nett, passar! Við eigum eina svona!
Pétur Björgvin, 27.4.2007 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.