10.5.2007 | 14:45
Að velja rétta litinn!
Síðustu vikurnar hef ég verið að vinna að undirbúningi þess að mála húsið okkar. Ég er búinn að skrapa, múra, þvo og grunna og nú er sem sagt komið að því að mála og þá stendur maður frammi fyrir þeim vanda að velja réttu litina. Húsið er núna gult og grænt og við hjónin erum alveg sammála um að þeir litir verði ekki áfram. Hvort yfirfæra megi það yfir á kosningar veit ég ekki en reyndar er Steingrímur rauði kenndur við græna litinn sem fram til þessa hefur nú verið í eigu framsóknarmanna. En hvað um það, ég ætla alla vega ekki að mála húsið blátt eða rautt eða grænt svo ekki verði nú hægt að líta á það sem stuðningsyfirlýsingu við neinn svona í aðdraganda kosninga.
Ég var nokkuð ánægður með mig í gær þegar frúin kom heim úr vinnunni því þá var ég búinn að mála með þrem mismunandi litum á einn vegginn en henni leist ekkert á þessa liti og á endanum var ég sammála því að fara og kaupa eins og tvær prufur í viðbót. Ég var nú ekkert allt of kátur í málningarbúðinni að þurfa standa í þessum snúningum en það var mér til happs að hitta þar kunningja minn sem var einmitt í sömu erindagjörðum og ég. Hann var búinn að prófa fimm liti og var mættur til að kaupa tvo í viðbót. Ég nikkaði til hans og spurði í léttum tón, Var konan ekki sátt? Æi þær eru nú fimm og þær voru sammála um einn litinn en sendu mig samt til að kaupa tvo liti í viðbót sem þær sáu á litaspjaldinu. Bíddu fimm konur sagði ég með augu á stærð við undirskálar. Já ég bý sko í raðhúsi..........
Ég gekk út í bíl með tvær prufudósir og bros á vör. Við hjónin höfum aldrei átt í erfiðleikum með að koma okkur saman um hlutina og fyrst ég bý í einbýli skal ég glaður fara eins margar ferðir og þarf þar til rétti liturinn er fundinn.
Þeir sem hafa áhuga fyrir því að tjá skoðun sína á prufunum geta litið við um helgina og sagt álit sitt. Við áskiljum okkur rétt til að hafa að engu ábendingar annarra og ætlum að ráða þessu sjálf líkt og við ráðum því sjálf hvað við kjósum.
Athugasemdir
Verður þá boðið upp á grillmat með?
Pétur Björgvin, 10.5.2007 kl. 18:04
nei ég mundi segja sú til vinstri
Sæunn Valdís, 12.5.2007 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.