Þá þú gengur í Guðs hús inn....

PICT5530Líkt og á hverju sumri höfum við hjónin tekið okkur svolítin tíma í að þvælast um landið. Að þessu sinni varð fyrir valinu sumarhús á Raufarhöfn, en fyrir þá sem ekki hafa komið norður fyrir Borgarfjörð þá er Raufarhöfn lítið þorp sem stendur nyrst allra kauptúna á landinu. Við dvöldum þarna í viku og keyrðum um svæðið og skoðuðum Þórshöfn, Bakkafjörð og Vopnafjörð. Vissulega veltir maður því fyrir sér hversu margir íslendingar eða öllu heldur fáir hafa skoðað þennan hluta landsins og þó svo að hugmynd Andra Snæs um að tileinka Melrakkasléttu bókina sína um Framtíðalandið sé svolítið rómantísk þá held ég að mörgum sem þarna búa finnist sú hugmynd léttvæg í samanburði við baráttu þeirra við að draga björg í bú.

Eitt af því sem við höfum ánægju af á svona ferðalögum er að koma við í hinum fjölmörgu kirkjum sem prýða landið en því miður virðist sem þessi hús séu aðeins opin þegar þar til gerður prestur jarðsyngur einhvern eða í þau fáu skipti sem hann ákveður að tími sé fyrir guðsþjónustu. Eina kirkjan sem var ólæst var á Skeggjastað og þar fórum við inn og skoðuðum fallegt og gamalt Guðs hús. Annars þurftum við að reyna að skoða inn um glugga og hvergi var neinar upplýsingar að finna um opnunartíma eða símanúmer hjá einhverjum sem gæti sýnt okkur kirkjuna. Ég trúi ekki öðru en að á hverjum stað megi finna einstaklinga sem væru tilbúnir til að sýna ferðamönnum kirkjuna sína fyrst ekki er hægt að hafa þær opnar allan sólarhringinn.

Kirkjan á að vera opin fyrir fólki. Kirkjan á að vera griðarstaður þar sem gott er að ganga inn og finna frið frá hversdagslegu amstri. Prestarnir eru þjónar kirkjunnar og eiga að sjá til þess að þetta sé hægt. Afsakanir um að ekki sé hægt að hafa kirkjurnar alltaf opnar af því að þá þurfi svo oft að þrífa þær eða að þá þurfi stöðugt að fylgjast með að ekkert sé tekið eru afsakanir þeirra sem ekki sjá tækifærin í nýjum verkefnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lutheran Dude

Ég kannast við þetta vandamál að koma að læstum kirkjum, verð þó að játa að stundum er ég fegin... allt er gott í hófi. Ég hef þó komið í Skeggjastaðakirkju en Þorgeir prédikaði einmitt þar í vetur.

Lutheran Dude, 30.7.2007 kl. 13:54

2 Smámynd: Þorgeir Arason

Ég er alveg hjartanlega sammála þér, Jói. Ég er í sumar á flakki um Austurland búinn að koma að læstum kirkjum á Vopnafirði, Seyðisfirði, Stöðvarfirði, Djúpavogi, Höfn í Hornafirði og Heydölum í Breiðdal. En opnar fann ég kirkjurnar að Kálfafellsstað í Suðursveit og Bjarnanesi í Nesjum. Það er sorglegt að ekki sé hægt að hafa kirkjur opnar allan sólarhringinn vegna hættu á þjófnuðum eða skemmdarverkum, en ótrúlegra að ekki sé hægt að finna lausn á opnun, eins og þú nefnir, með tilstilli presta og sóknarfólks, a.m.k. yfir sumartímann þegar fjöldi ferðamanna neyðist til að guða á gluggann á svo mörgum kirkjum, sem vert er að skoða.

Þorgeir Arason, 30.7.2007 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband