5.12.2007 | 00:10
Skemmtilegur dagur!
Í dag var góður dagur. Í hádeginu fór ég ásamt tveimur félögum mínum úr Hólavatnsstjórninni á veitingastaðinn Friðrik V. til að taka við styrk úr Menningarsjóði KEA. Við stefnum nefnilega á það að fara byggja og af því tilefni fengum við 1.750.000 kr. í styrk. Þetta þýðir að við erum komin með um 4 milljónir í skálasjóð en þann 1. nóv. síðasta kom einmitt stofnframlag í þennan sjóð upp á 2 millur. Stjórnin ákvað svo að leggja 250.000 af rekstrarfé sumarbúðanna í sjóðinn á þessu ári, (þrátt fyrir eldhúsframkvæmdir) og svo þessi upphæð í dag. Húsið sem á að byggja er enn á hönnunarstigi og hér neðar á blogginu má finna tengingu á síðu þar sem getur að líta nokkrar hugmyndir sem ég hef verið að leika mér með. Teikning númer 5 er sú nýjasta en hún gerir ráð fyrir fimm 6 manna herbergjum og kvöldvökusal á annarri hæð yfir fjórum endaherbergjum og gangi. Það eru nokkur atriði eða forsendur sem vert er að hafa í huga við hönnun hússins. Að mínu mati er það eftirfarandi:
- Framtíðar gistirými þarf að vera á bilinu 30 - 40 rúm.
- Allt gistirými þarf að vera á jarðhæð til að tryggja öruggustu flóttaleiðir.
- Miðað verði við 6 í herbergi sem verður að lágmarki að vera 12 fm.
- Æskilegt er að í starfsmannaherbergi sé snyrting og sturta.
- Í framtíðinni þarf að koma nýr salur fyrir morgunstundir og kvöldvökur en með því losnar um borðsalinn svo þar getur verið föst uppröðun.
- Hver snyrting sé með sér hurð og vask þar inni, sem sagt, ekki skilrúmaklósett.
- Vaskar séu inn á herbergjum svo hægt sé að bursta tennur inn á herbergjum.
- Tenging við eldra hús sé eðlileg og raski skipulagi eldra húss sem minnst.
Þeir sem vilja koma með álit eða jákvæða gagnrýni eru hvattir til að tjá sig um málið og eins má það alveg fréttast að við leitum að nokkrum milljónum í viðbót við þessa góðu byrjun.
Þessi færsla er tileinkuð hinum risasmáu sumarbúðum að Hólavatni.
Athugasemdir
Innilegar hamingjuóskir úr Reykjavíkinni til Hólavatns með þennan höfðinglega styrk! Hlakka til að sjá nýja skálann risinn - von bráðar ef ég þekki stórhuga norðanmenn rétt!
Þorgeir Arason, 7.12.2007 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.