Ég vona ég sé hlutlaus!

Það er mér mikill léttir að vera ekki að kenna í desember. Ég nefnilega hef smitast af áróðri Siðmenntar og algjörlega haldið trúarbrögðum frá kennslu og skólastarfi eins og þeir hafa margsinnis óskað í blöðum undanfarið. Það gengur hins vegar ekkert rosalega vel að neita því statt og stöðugt að það séu senn að koma jól. Ég hef reynt að segja krökkunum að hætta þessari vitleysu því að í skólastofunni afneitum við tilvist jólanna í virðingarskyni við önnur trúarbrögð. Ég reyni bara markvisst að búa til kenningar um að jólin séu fyrir kaupmennina og svo allir geti eytt desemberuppbótinni í eitthvað því ekki vil ég að börnin geri sér ranghugmyndir um að þetta tengist eitthvað Jesúbarninu og því öllu. En þetta verður bara erfitt fyrstu 100 árin en ef við höldum bara áfram að afneita trúarbrögðum þá kannski tekst okkur að fá alla til að gleyma því að til sé von. Ég er bara feginn að vera ekki að kenna og get því brosað framan í alla sem ég sé og óskað gleðilegra jóla. Heppinn!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, hjúkket maður. Eins gott að ég er líka í orlofi. En til hamingju með að vera algjör kelling :0) og vera í löngu fæðingarorlofi. Mikið rosalega er dóttir þín heppin. Hittumst svo pottþétt fyrir norðan um jólin.

Sara (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 16:49

2 Smámynd: Vantrú

"Ég nefnilega hef smitast af áróðri Siðmenntar og algjörlega haldið trúarbrögðum frá kennslu og skólastarfi eins og þeir hafa margsinnis óskað í blöðum undanfarið."

 Gætir þú vísað á eins og eitt dæmi til að rökstyðja þessa fullyrðingu þína?

 Hvað koma <a href="http://www.vantru.is/jolin">jólin</a> annars kristni við?  [http://www.vantru.is/jolin] ef linkur kemur ekki í setningunni.

Vantrú, 14.12.2006 kl. 22:06

3 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Ef þú hefðir sýnt mér þá virðingu að kynna þig með nafni þá hefði ég kannski gefið mér tíma til að leiða þér fyrir sjónir hugtökin umburðarlyndi eða tillitssemi en eftir að hafa skoðað bloggsíðuna þína sé ég að það hefði ekki þjónað neinum tilgangi. Skoðanir mínar og hugrenningar eru settar fram í þeim rétti sem ég hef sem einstaklingur til að tjá þær án þess að þurfa að munnhöggvast við einstaklinga sem vilja að allur heimurinn sé á sömu skoðun og þeir sjálfir.

Jóhann Þorsteinsson, 15.12.2006 kl. 20:23

4 identicon

Óskaplega þykir mér þetta ódýrt svar Jóhann.

Ég heiti Matthías Ásgeirsson og er frændi þinn, Jóna amma mín heitin var systir föður þíns.

Hvergi var ég að munnhöggvast í athugasemd minni og endurtek því spurninguna, hvar hefur Siðmennt farið fram á að trúarbrögðum sé "algjörlega haldið frá kennslu og skólastarfi".  Ekki er þetta bara rógburður frændi?

Matthías Ásgeirsson (www.orvitinn.com) (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 13:48

5 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Já Matthías það má vera að þú hafir nokkuð til þíns máls að ég hafi tekið fullstórt upp í mig með fullyrðingum um að Siðmennt vilji halda trúarbrögðum algjörlega frá kennslu en líklega er það kannski ónákvæmni í orðavali hjá mér og óöguð framsetning. Ég á kannski einkum við þátttöku nemenda í undirbúningi jólanna í þessu tilfelli. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru um 94% þjóðarinnar skráð í kristin trúfélög þann 1. des. 2005. Í þeim skóla sem ég hef kennt við eru allir nemendur skólans skráðir í kristin trúfélög, líka þeir sem koma erlendis frá. Það breytir ekki afstöðu Siðmenntar um hlutleysi opinbers skóla. Það sem angrar mig í þessari hlutleysisstefnu er að ég tel að ef henni verður einhverntímann framfylgt til hins ítrasta þá muni það leiða af sér einkaskóla í auknum mæli. Aukna aðgreiningu og minna umburðarlyndi og þekkingu á ólíkum lífsskoðunum. Ég vil samt taka það fram að ég er ekki að tala fyrir því að einstök trúfélög eigi að hafa ótakmarkað frelsi til að stunda trúboð inn í skólunum en ég tel það fræðsuskyldu skólanna að sinna trúfræðslu og skapa einstaklingum tækifæri til að tjá sig um trú sína eða lífsskoðanir. En ég virði það við þig Matti að vera á annarri skoðun en ég um tilgang lífsins. Skrýtið að hugsa til þess hvað ítroðslan (boðunin) hjá Boga frænda á Ástjörn hefur þá haft lítið áhrif á þig eftir allt saman. Kannski er þetta bara partur af þekkingarbrunni þínum en þú velur sjálfur á endanum hverju þú trúir. Ekki satt?

Jóhann Þorsteinsson, 18.12.2006 kl. 00:39

6 Smámynd: Vantrú

Meirihlutavísun þinni var svarað fyrir þrem dögum á Vantrú: Meirihlutagoðsögnin

Þessir tveir mánuðir á Ástjörn höfðu varla úrslitaáhrif um lífsskoðanir mínar, ég eyddi  meiri tíma hjá ömmu og afa á Sigló og þar var ekki mikill trúarhiti.  Ég eyddi líka meiri tíma við leik og stund en bænaiðkun á Ástjörn.

Siðmennt (sem ég n.b. tala ekki fyrir) hefur lagt mikla áherslu á að trúarbragðakennsla sé í skólum og hefur jafnvel viljað auka hana.  En það er afar mikilvægt að gera greinarmun á kennslu og trúboði.  Á því hefur oft orðið misbrestur hér á landi og ýmislegt er hægt að setja út á kennsluefni í kristnifræði.  En að sjálfsögðu má spyrja sig hvort kenna eigi kristinfræði í skólum, mér finnst svarið ekkert svo augljóst.  Ekki skil ég af hverju þetta ætti að ógna opinbera skólakerfinu, hafa börn ekki greiðan aðgang að kirkju sinni utan skólatíma?  Mér finnst eitthvað verulega athugavert hjá fólki sem hefur þá kröfu að skólinn sjái um trúarlegt uppeldi barna sinna.

Hvað undirbúning fyrir jólin varðar, þá er hægt að gera ansi mikið án þess að þar sé farið út í trúboð, jólin eru jú að stærstum hluta heiðin hátíð og trúarþátturinn er í raun afar léttvægur fyrir flesta.

ps. Dóttir mín að fara í kirkju í dag með skólanum sínum, það er ósköp lítið sem ég get gert í því.

pss.  Nú var ekki lengur hægt að senda inn athugasemd án þess að vera skráður notandi.  Því sendi ég þetta hingað inn sem Vantrú. 

Vantrú, 18.12.2006 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband