Færsluflokkur: Bloggar

Mikill meðbyr á Landsfundi KFUM og KFUK!

Ég var fyrir sunnan um helgina að funda með KFUM og KFUK. Á föstudagskvöldinu var svokallaður fulltrúaráðsfundur en þar komu saman formenn allra starfsstöðva sem heyra undir félagið en það eru alls 9 slíkar. Að þeim fundi loknum sat ég svo minn síðasta stjórnarfund í stjórn KFUM og KFUK á Íslandi og á laugardeginum var svo sjálfur landsfundurinn. Í mínum augum var þessi fundur ekkert síður merkilegur en landsfundir stjórnmálaflokkanna þó hann fái öllu minni athygli fréttamanna. Ég get líka sagt með stolti að það ríkti mikil eining og gleði meðal fundarmanna og einu athugasemdirnar voru í raun hugmyndir um hluti sem mætti gera betur eða bæta við. Sjálfboðaliðar í stjórnum og ráðum eru tæplega áttatíu talsins, Sjálfboðaliðar í deildarstarfi eru tæplega 200 talsins og þá eru ótaldir þeir fjölmörgu félagsmenn sem koma að fjáröflunarverkefnum, vinnuferðum í sumarbúðir og margt fleira. Og markmiðið er það sama og verið hefur í yfir hundrað ár að vera æskulýðshreyfing sem stuðlar að heilbrigði mannsins til líkama, sálar og anda og byggja starf sitt á aðferðafræði Jesú Krists að mæta hverri manneskju af umhyggju, kærleika og virðingu. Íslenska þjóðin þarf á slíku starfi að halda og KFUM og kFUK þarf á fleiri fúsum höndum að halda svo hægt sé að gera gott starf enn betra. Heyr, heyr, og hananú.

Vinnuferð á fyrsta degi sumars!

Dagurinn var tekinn snemma og lagt af stað klukkan átta. Fjórir vaskir menn fóru saman til vinnu að Hólavatni á þessum fyrsta degi sumars og höfðu menn á orði að fjórar gráður í mínus væri nú ekki alveg þeirra hugmynd um sumar. Það átti eftir að versna því þegar við komum frameftir kom í ljós að gleymst hafði að slá inn örygginu fyrir kyndinguna um síðustu helgi og var því nánast við frostmark í húsinu. Burr Burr. Davíð var svo kalt að hann kveikti upp í gasgrillinu inn í sal til að kynda húsið en svo hlýnaði eftir sem leið á daginn. Með í för að þessu sinni voru auk mín, Hreinn Andrés sem situr í stjórn Hólavatns, Davíð mágur minn sem er rafeindavirki og snillingur í raflögnum og Geir Ármann Hólvetningur sem var alltaf á Hólavatni þegar hann var gutti og er nýútskrifaður húsasmiður og mjög áhugasamur um uppbygginguna að Hólavatni. Svo kom Þórður "yfirsmiður" í heimsókn með strákana sína tvo og reyndi að skipa okkur fyrir en við létum hann bara hella upp á kaffi og sendum hann svo aftur heim. Að loknum degi var búið að rífa norðurgluggann úr og loka gatinu, einangra, plasta, festa rafmagnsdósir og rör á milli og grindin komin í loftið að mestu. Í næstu ferð verður því komið að því að klæða plötur í loft og á veggi. Nokkrar nýjar myndir eru komnar inn í Hólavatnsalbúmið hér til hliðar.


Fara N4 þá bara ekki í mál við N1??

n4Það þykir mér heldur neyðarlegt fyrir hið nýja sameinaða fyrirtæki að hafa keypt svona stolna hugmynd að nýju nafni. Þetta er augljós stæling af N4 sem er fjölmiðlarisi okkar norðlendinga með eigin sjónvarpsstöð og blaðaútgáfu. Meira að segja litirnir í merkjunum eru sláanlega líkir þó svo að ekki sé sami rauði tónninn í þeim. Samt bráðfyndið að Esso sem svo margir hafa alltaf skipt við sjái ástæðu til að afmá merkið í burt í þeirri von að þeir sem enn eru reiðir vegna samráðs olíufélaganna gleymi að N1 er olíufélag í felulitum. Hehe nú er bara spennandi að sjá hvaða fyrirtæki fá nafnið N2 og N3.
mbl.is N1 kemur í stað Bílanausts og ESSO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn heim frá London

Jábbs þá erum við hjónin komin heim eftir dásamlega helgi í höfuðborg Englands. Við flugum með Iceland Express og þeir stóðu sig vel, ágætis þjónusta og á réttum tíma. Hótelið bókuðum við á netinu og það heitir Hotel Ibiz og var fínt, morgunmaturinn ágætur og herbergið snyrtilegt þótt ekki væri það stórt. Við versluðum og mælum með Primark sem er ofarlega á Oxford stræti og þar við hliðina er mjög fínn ítalskur veitingastaður sem heitir Ask. Verð líka að mæla með Abba sýningunni Mamma Mia sem var vel þess virði að sjá og að lokum mælum við með gönguferð í Queen Mary's Gardens í Regent's Park sem er góð slökun frá mannfjöldanum og þar var líka ágætis útikaffihús.

Og nágrannavarslan, þjófavarnarkerfið, tíðar heimsóknir ættingja og lítill íburður heimilisins björguðu því að engu var stolið og allt á sínum stað þegar heim var komið og meira að segja börnin tóku á móti okkur og pabbi var búinn að elda handa okkur kvöldmat á okkar heimili.Cool Góður endir á góðri ferð.


Öryggiskerfi, nágrannavarsla og tíðar heimsóknir!

Einhversstaðar las ég um að maður ætti aldrei að skrifa á blogginu sínu að maður væri að fara til útlanda því þá væri maður að gefa innbrotsþjófum upplýsingar sem þeir gætu nýtt sér. En ég var búinn að gleyma því þegar ég bloggaði síðast og uppljóstraði þá áætlunum okkar hjóna um helgarferð til Lundúnaborgar en þar sem ég er heiðarlegur maður að eðlisfari finnst mér rétt að veita þá enn betri upplýsingar ef þú lesandi góður hefur eitthvað misjafnt í huga. Við skiljum börnin eftir og afi og amma passa þau fyrir okkur á meðan. Þá höfum við talað við nágrannana sem ætla að fylgjast vel með öllum grunsamlegum ferðum í kringum húsið þessa daga. Reyndar þurfa þau fyrst og fremst að hlusta eftir öryggiskerfinu sem er reyndar tengt stjórnstöð og svo hef ég líka samið við skyldmenni um tíðar heimsóknir svo ekki verður nú mikill friður til að athafna sig.

Reyndar má líka geta þess að Panasonic vídeótækið sem ég keypti í Raflandi 1993 gaf upp öndina í vetur, DVD spilarinn sem er af United gerð dó líka, við eigum ekki flatskjá heldur bara gamalt Sony tæki, tölvan er ekki merkileg en mér er annt um harða diskinn. Þá má kannski geta þess að síðustu að við söfnum ekki listaverkum. Ergo..... It's not worth it.


Hólavatn hjartakæra!

Í dag fór ég með tengdapabba mínum fram á Hólavatn til að líta á eldhúsið en nú er búið að rífa allt út úr eldhúsinu og komið að því að byggja upp á ný. Það má segja sem svo að þessi ferð hafi verið farin til að leita ráða hjá öldungnum því þrátt fyrir ungan aldur tengdaföður míns þá rifjaðist upp fyrir honum þegar skálinn á Hólavatni var í byggingu fyrir rúmum fjörtíu árum síðan. Mikið langar mig til þess að eiga kost á því eftir þrjátíu ár að fara með ungum manni fram á Hólavatn og sjá hvað þá verður í burðarliðnum. En svo sannarlega fann ég fyrir því í dag þegar við vorum að fara yfir verkefnið sem framundan er að við þurfum á Guðs hjálp að halda. Ég er reyndar furðu rólegur yfir þessu en kannski er það barnslegt traust mitt til Guðs um að hann hefði aldrei leyft okkur að fara af stað nema hann hafi áætlun um hvernig við ljúkum verkinu. Til skemmtunar og fróðleiks setti ég myndir í albúm sem finna má hér hægra megin á síðunni. Fyrst ég er farinn að skrifa um Hólavatn er bara best að segja líka frá því að okkur vantar rafvirkja, pípara, smiði, verkamenn, ráðskonu fyrir sumarið og kannski smá hvatningu líka. Happy

Annars er ég svolítið með hugann við London því nú eru aðeins þrír dagar í að við ökum suður á Hótel Keflavík og svo út á fimmtudagsmorgun. Good bye Akureyri.....Hello London!!!


ABBA - rúlar!!

Já ég bara varð að skrifa lítið eitt um þessa frétt. Ég og frúin erum nefnilega á leiðinni til Londons um páskana og ætlum einmitt á ABBA showið MAMMA-MIA. Ég verð nú að játa það að eftirvæntingin er orðin allnokkur enda vorum við hjónin síðast ein um helgi fyrir fjórum árum síðan. Jamm það er ekki alltaf tekið út með sældinni að eiga börn og buru en ef þú átt ekkert og ert að pæla hvort þú eigir að skella í ofninn þá bara segi ég: Láttu það eftir þér --- það er vel þess virði. Enda fékk ég ekkert smá fallegt kort frá 7 ára dóttur minni í vikunni þar sem hún óskaði þess að það yrði gaman hjá mér og mömmu hennar í London um páskana. Ég ætla gera allt sem ég get til að bregðast henni ekki með það. Ef þú ert veraldarvanur/vön í London og villt mæla með einhverju sem er algjört möst að þínu mati að sjá eða reyna þá endilega láttu skoðun þína í ljós hér á síðunni. Greetings.


mbl.is Björn og Benny úr ABBA sælir eftir söngleikjasigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorhátíð - allir velkomnir!!

Já hér birtist smá auglýsing. Ef þú ætlar að leyfa barninu þínu að fara í sumarbúðir þá er Hólavatn rétti staðurinn. Engin spurning..... Hólavatn er málið....Frá mánudegi til föstudags....pökkuð dagskrá.... frábært umhverfi....flottir bátar....gott starfsfólk....góður matur....dýrmæt lífsreynsla.

auglysing


Óskalisti!

Ef maður getur einskis óskað sér þá er maður fátækur maður því að í óskinni er falin von.

Ég á mér margar óskir og sem betur fer eru margar þeirra uppfylltar en mig langar til að birta hér lista yfir þær óskir sem enn hafa ekki ræst en ég vona að muni rætast á næstu vikum og mánuðum.

  • Ég óska mér að einhverjir góðir menn og konur taki að sér að byggja upp leikaðstöðu að Hólavatni.
  • Ég óska mér að fleira fólk gefi kost á sér til að vinna fyrir KFUM og KFUK.
  • Ég óska mér að eignast nýtt grill í sumar því gamla grillið mitt er orðið svolítið þreytt.
  • Ég óska mér að það takist að mála húsið mitt í sumar.
  • Ég óska mér að hjólabátarnir sem ég er búinn að panta frá Kanada komist til Íslands áður en sumarstarfið hefst.
  • Ég óska mér að einhver bjóðist til að flytja ofn, eldavél og innréttingu fyrir Hólavatn frá Rvk.
  • Ég óska mér að ég geti verið öðrum hvatning og gleðigjafi.

Læt þetta duga á óskalistann í bili og þakka Guði um leið fyrir allar þær fjölmörgu óskir sem þegar hafa ræst.

Over and Out.


Sagan endalausa!

Einu sinni var ríkur maður sem hét Geir. Hann réði yfir öllum peningunum í ríki sínu með litla bróður sínum Árna og sætu prinsessunni henni Þorgerði. Dag einn fékk Þorgerður góða hugmynd. Við skulum plata Halldór frá Ísó og Gunnar Rafn bróðir hans til að kaupa handa okkur stóra stóra þekkingarköku hjá bakarameistaranum Óla Lofts. 'Nei það er ekki sniðugt', sagði Árni, 'hún kostar svo mikið. 'Nei nei Árni minn', sagði Þorgerður, 'Við segjum þeim ekkert hvað hún mun kosta heldur látum þá bara hafa smá pening og þeir verða svo að borga mismuninn.'

Halldór og Gunnar voru svo montnir yfir því að vera treyst fyrir þessu stóra verkefni að þeir pöntuðu flottustu og bestu þekkingarköku sem Óli gat boðið upp á og allir bakararnir lögðu hart að sér við að búa til kökuna.....En bíddu við, hvað er að gerast..............Halldór og Gunnar eru búnir með alla peningana sína og enginn vill lengur vera vinur þeirra.

ÞORGERÐUR!!!!    ÁRNI!!!!      GEIR!!!!     VIÐ VILJUM MEIR!!!!

'Ekki ég' sagði litla sæta prinsessan. 'Ekki ég' sagði Árni litli. 'Ekki ég' sagði Geir og enginn fékk meir.

En hvað átti Óli nú að gera? Hann var búinn að biðja alla bakarana um að búa til stóra þekkingarköku en nú átti hann enga peninga til að borga þeim. En Halldór og Gunnar hristu bara hausinn og sögðu 'EKKI ÉG'

Þessu ævintýri er enn ekki lokið og sagan endalausa heldur áfram en hætt er við að eitthvað muni skorta hráefni í þekkingarköku framtíðarinnar og ekki er víst að áfram fáist góðir bakarar til að hnoða deigið. Því er nú verr.


mbl.is Kennarar ræða við sveitafélögin hjá ríkissáttarsemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband