Færsluflokkur: Bloggar

Er Guð eitthvað verri?

Það er skiljanlegt að menn dæmi harkalega í málefnum Byrgisins nú þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar hefur litið dagsins ljós. Það er alveg ljóst að þarna hafa menn algjörlega misnotað það traust sem þeim var falið með umsjón þessara fjármuna ríkisins og ekkert sem réttlætir svona fjármálaóreiðu. Hins vegar hefur það vakið athygli mína í fyrirspurnum fjölmiðlamanna og ummælum fólks á götunni og á blogginu að þetta gefi okkur ástæðu til að alhæfa um svona "kristilega" starfsemi. Ég las meðal annars einhversstaðar í bloggheimum þá merkilegu staðhæfingu að "Guð sjái vel um sína" og því sé spurt hvort nokkuð sé treystandi á menn sem boða trú á Guð. Það er til máltæki hjá múslimum sem segir "Þótt þú trúir á Allah, skaltu samt binda asnann þinn." Ég held nefnilega að svona dæmi eins og við erum að verða vitni af með Byrgið sýni okkur einfaldlega að við verðum auðvitað að gera sömu kröfur til allra um að hafa sín mál á hreinu. En í mínum huga er engin sérstök ástæða til að blanda Guði í málið. Hann er örugglega ekkert sáttur við það þegar menn ljúga eða svíkja..............alveg óháð því hvort menn hafi gefið út yfirlýsingar um að trúa á hann eða ekki.


Áramótaheit....

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér þessu fyrirbæri að setja sér áramótaheit. Ég sjálfur hef ekki verið duglegur í gegnum tíðina að setja mér áramótaheit en þegar ég hef gert það þá hefur hugur ekki fylgt máli og ég hef fallið innan skamms tíma. Enda hafa mín áramótaheit yfirleitt snúist um að neita mér um eitthvað sem mér finnst gott og ég er ekkert sérlega góður í því. Nammibindindi er að mínu viti ókristilegt og mannskemmandi fyrirbæri sem brýtur niður sjálfsmyndina því að um leið og maður ákveður að fara í slíkt bindindi er maður að játa það fyrir sjálfum sér og öðrum að maður sé ósjálfráða kvikindi sem láti stjórnast af nammifíkn frekar en skynsamlegri og ígrundaðri ákvörðun um að fá sér smá nammi. Það er ekki eins og ég eigi við vandamál að stríða þó mér finnist nammi gott. Ég er ekkert að brjótast inn og stela til að fjármagna kaup mín á sælgæti og ekki borða ég nammi frá öðrum. Ég einfaldlega borða eingöngu það sælgæti sem ég kaupi mér sjálfur, fyrir mína peninga, á löglegum sölustöðum. Nei ég tek ekki þátt í þessu sjálfsafneitunarsamfélagi.

Hins vegar held ég að það væri þjóðráð að taka upp þann sið að einungis megi setja sér áramótaheit ef aðrir hljóta ávinning af því. T.d. get ég sett mér það heit að vera duglegri að heimsækja skyldfólk mitt á nýju ári [Að því gefnu að þau telji það vera ávinning sinn að fá mig í heimsókn] eða ég get verið opinn fyrir því að láta gott af mér leiða fyrir þá sem minna mega sín. Sem sagt; Áramótaheit öðrum til heilla og hamingju en ekki sjálfum mér til pyntinga og niðurlægingar.

„ALLT er svo auðvelt....... bara ef maður þarf ekki að gera það sjálfur.“ 


Tíu ár í taumi!

Já í dag er góður dagur því við hjónin eigum tíu ára brúðkaupsafmæli. Mér finnst ekki svo langt síðan en engu að síður man ég varla annan tíma en okkur tvö saman. Þvílíkt lán að finna lífsförunaut sem deilir með manni gleði og sorg. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru skilnaðir tíðastir hjá hjónum eftir 3-5 ára hjónaband svo maður gæti farið að vona að maður sé sloppinn. Wink  En kannski er bara hættulegt að halda að einhvern dag verði hjónabandið svo pottþétt að maður þurfi ekki að hugsa um það eða sinna makanum, kannski einmitt þá aukast líkurnar á því að allt dofni og fjarlægðin aukist. Ást, virðing og skilningur eru hugtök sem koma upp í hugann þegar ég leyfi mér að pæla í hjónabandinu, kannski væmið, en það er nauðsynlegt að vita hvers virði hjónabandið er manni og hvaða virðingarstöðu maður setur það í. Hey.............Það er Roast Beef og franskar í kvöldmatinn og svo ætlar Björgunarsveitin Súlur að vera með flugeldasýningu klukkan 20.00 okkur til heiðurs. Lífið er yndislegt og vel þess virði að lifa því.

Dýrara ef maður sagar það sjálfur!

Sunnudagur til sælu!!! Já það var hugmyndin en þá hringdi Dabbi og stakk upp á því að við myndum skella okkur á Þelamörk og saga okkar eigin jólatré. Hljómar vel og vissulega spennandi fyrir börnin. Ég var með eina bílinn með krók svo ég átti að sækja kerruna hans Dabba og fór af stað um kortér yfir tvö. Það tók sinn tíma að mjaka bílnum í gegnum snjóinn upp að kerrunni og ég var því kominn heim hálftíma síðar, en viti menn, þá kom í ljós að annað dekkið á kerrunni var punkterað [norðlenska fyrir loftlaust dekk] OOOHHhhhh!!  Piiirrrrrr! Jæja þá var bara að bretta upp ermar og moka vélsleðakerruna hans pabba út en það tók nú ekki nema hálftíma svo allir voru klárir og lagt var af stað klukkan að verða hálf fjögur. Þegar við loksins komum á Þelamörk var byrjað að rökkva svo það hefði verið gott að hafa vasaljós en á endanum sagaði ég bara eitthvað tré sem virtist, í myrkrinu, ekki vera svo slæmt. FJÖGUR þúsund kall........ takk fyrir tré sem ég sagaði sjálfur. Það er nefnilega dýrara heldur en að kaupa það sagað. Þetta var nú samt pínu gaman og svo fengum við okkur smákökur og kakó. En pabbi sagði að ég ætti bara hætta þessari vitleysu og kaupa gervijólatré af skátunum. Ávallt viðbúinn!

The biggest loser!

Já já það er kannski til marks um lélegt sjónvarpsefni eða skort á áhugamálum að ég horfði á úrslitaþátt "The biggest loser" sem var á Skjá einum í kvöld. Ég hef svona laumast til að horfa á brot og brot úr seríunni en konan mín hefur andstyggð á þessum þáttum og finnst þetta lágkúrulegt sjónvarpsefni. Ég er svo sem enginn sérstakur aðdáandi og sérstaklega ekki þegar allt er spilað á tilfinningastiginu en engu að síður tek ég ofan hattinn fyrir hverjum þeim sem ákveður að færa líf sitt til betri vegar. Að geta ekki gengið upp stiga vegna offitu er ekkert grín. Ég get nú samt ekki annað en brosað út í annað yfir máttleysi mínu varðandi þyngdina því ég væri alveg til í að losa mig við svona 8% af eigin líkamsþyngd en þetta lið var að losa sig við 40%. Samt geri ég ekkert í þessu annað en að kinka kolli og hugsa um hvað lífið væri nú mikið skemmtilegra ef ég væri búinn að losa mig við þessi átta prósent. En mér er sagt að allt í kringum okkur, matvara, leiga, þjónusta og allt taki mið af vísitölu sem hefur einmitt verið í kringum 8% síðastliðið ár svo ég má bara vera ánægður með að standa í stað. Því ég þyngist alla vega ekki í samræmi við neysluvísitölu og yfir því gleðst ég.

Ég vona ég sé hlutlaus!

Það er mér mikill léttir að vera ekki að kenna í desember. Ég nefnilega hef smitast af áróðri Siðmenntar og algjörlega haldið trúarbrögðum frá kennslu og skólastarfi eins og þeir hafa margsinnis óskað í blöðum undanfarið. Það gengur hins vegar ekkert rosalega vel að neita því statt og stöðugt að það séu senn að koma jól. Ég hef reynt að segja krökkunum að hætta þessari vitleysu því að í skólastofunni afneitum við tilvist jólanna í virðingarskyni við önnur trúarbrögð. Ég reyni bara markvisst að búa til kenningar um að jólin séu fyrir kaupmennina og svo allir geti eytt desemberuppbótinni í eitthvað því ekki vil ég að börnin geri sér ranghugmyndir um að þetta tengist eitthvað Jesúbarninu og því öllu. En þetta verður bara erfitt fyrstu 100 árin en ef við höldum bara áfram að afneita trúarbrögðum þá kannski tekst okkur að fá alla til að gleyma því að til sé von. Ég er bara feginn að vera ekki að kenna og get því brosað framan í alla sem ég sé og óskað gleðilegra jóla. Heppinn!

Heimavinnandi og brjálað að gera!

Jæja ég held að í tilefni þessara tímamóta í lífi mínu sé rétt að stofna nýtt blog og reyna að fá útrás fyrir þörf mína fyrir að tala. Ég er sem sagt kominn í 6 mánaða feðraorlof. Já þú last rétt 6 MÁNAÐA orlof til að vera heima með dóttur minni sem er nýorðin eins árs og mamma hennar er farin að vinna. Nú, ég hef legið undir því ámæli að vera "algjör kelling" að ætla hanga heima aðgerðarlaus í hálft ár. Flesta daga líður mér ekkert illa yfir þessu en svo kemur fyrir að mér finnst eins og karlmennskuímynd mín sér örlítið beygluð vegna þessa. Það var einmitt það sem rak mig til þess að byrja mánudaginn á því að fara í BYKO og rölta með dóttur mína innan um verkfæri, málningu, og fleira. Ég gerði smá verðkönnun á helstu handverkfærum sem mig vantar eða langar í og var bara nokkuð ánægður með mig þegar ég leit á klukkuna og sá að við vorum búin að vera þrjú korter að þvælast þarna. Mér leið hins vegar ekki eins vel þegar ég settist út í bíl og áttaði mig á því að líklega hafði ég varið mestum tíma inn í Blómaval sem er flutt í BYKO og svo í að leita að ryksugupoka og skoða þurrkara. Æi ég get líklega seint flúið minn innri mann [konu].........................En ekki segja strákunum það!!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband