Færsluflokkur: Bloggar

Sjálfstæð kirkja

Andstæðingar íslensku þjóðkirkjunar grípa boltann á lofti og vonast eftir því að orð Björns Bjarnasonar séu skref í áttina að aðskilnaði ríkis og kirkju. Sjálfstæði kirkjunnar er mikið og fjárhagsgrundvöllurinn traustur þar sem samningur hefur verið gerið við ríkið um árlegar greiðslur ríkisins til kirkjunnar vegna eigna kirkjunnar sem ríkið hefur ráðstafað á síðustu öldum. Í þessu felst ekki mismunun ríkisins á milli ólíkra trúarbragða heldur viðurkenning á eignarrétti kirkjunnar. Áður fyrr þótti nefnilega ekki tiltökumál að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ráðstöfuðu landi og eignum sem kirkjan átti, þar sem að um ríkiskirkju var að ræða. Nú þegar samfélagið er á margan hátt margbrotnara og fjölbreyttara er ekki óeðlilegt að upp komi krafa um aðskilnað ríkis og kirkju og ríkið greiðir þá málamyndaupphæð sem þó bætir engan veginn það land og þau gæði sem ríkið hefur í dag en var áður kirkjunnar.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að aðskilnaðurinn geti verið jákvæður en um leið vil ég ekki að við látum afar smáan minnihluta þvinga okkur til að leggja af kristinn sið í landinu til að þóknast þeim. Jafnrétti er tryggt með vali einstaklingsins til að hafa skoðanir og tjá þær. Við lifum í landi þar sem ríkir trúfrelsi en yfir 90 % þjóðarinnar er skráð í kristin trúfélög og því er eðlilegt að draga þá ályktun að þessi mikli meirihluti vilji að þessi afstaða sé sýnileg í samfélaginu.

 


mbl.is Rætt um að færa þjóðkirkjuna til forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilmennskubrjálæði!

Tja ég hef ekki verið duglegur að blogga. Biðst afsökunar á því en ég hef verið að nota tíma minn í ýmislegt annað. T.d. hef ég verið að leika mér að því að prófa alls konar frían hugbúnað til að skissa upp hugmyndir að nýbyggingum á Hólavatni. Mig vantar nefnilega ekkert hugmyndir........mig vantar bara svona 30 kúlur.

En til gamans leyfi ég ykkur að sjá hér eina hugmynd. Fyrir þá sem þekkja eitthvað til á Hólavatni þá er þessi bygging hugsuð austan við gamla húsið og hvítu tröppurnar sem sjást á teikningunni koma inn í gamla húsið á svipuðum stað og maður kemur inn í dag, nema bara þar sem glugginn er til austurs.

Slóðin er http://www.floorplanner.com/ba537c/

 


Akureyrarvaka í stað "Einnar með öllu"

Ég tók þátt í ýmsum dagskrárliðum um helgina sem tengdust Akureyrarvöku og þar sem ég stóð á Ráðhústorgi í gærkvöldi og horfði á glæsilega flugeldasýningu sannfærðist ég um að þarna er komin hátíðin sem við Akureyringar eigum að standa bakvið. Við eigum að hætta að reyna að skapa fjölskyldustemmingu á helstu fyllírishelgi ársins, verslunarmannahelginni og byggja utanum Akureyrarvöku síðustu helgina í ágúst. Fylla öll hótel og gistiheimili af fólki og hvetja Akureyringa til að opna hús sín fyrir vinum og vandamönnum og nýta hvern bedda sem fyrir finnst í bænum. Ekkert tjaldvesen. Svo þurfum við bara að sameinast um öflugt foreldrarölt í samvinnu við björgunarsveitina í bænum til að passa upp á þá krakka sem fara yfir línuna. Dagskrá helgarinnar var nefnilega fjölskylduvæn enda ekkert ball með Palla í boði og það veit yfirleitt á gott.Cool

 


Gott að nýjir fást í staðinn!

Frábært að vel gangi að ráða inn nýja kennara. En hvert fóru hinir? Af hverju þarf alltaf að ráða nýja á hverju hausti? Er þetta bara í lagi og voða jákvætt að vel gangi að ráða nýja kennara?????

Ég votta þeim samúð mína sem gefist hafa upp og fundið sér betri kjör.


mbl.is Vel gekk að ráða kennara á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílíkur farsi!!

Ég skemmti mér ágætlega við lestur athugasemda á bloggsíðunni hans Birgis um þessa höfnun Akureyrarbæjar á ungu fólki 18-23 ára. Þar sýnist sitt hverjum og alls ekki allir á einu máli um hvort bæjarstjórnin eigi að segja af sér. Ég gæti nú líklega alveg eins farið af stað með undirskriftasöfnun og krafist þess að þeim skemmtistöðum verði lokað til frambúðar sem brjóti lög og leyfi viðskiptavinum að drekka áfengi við borð utandyra, þar sem það er bannað með lögum.

Ég held að Akureyrarbær hafi staðið frammi fyrir svolítið erfiðum vanda fyrir þessa helgi. Það hafa nefnilega verið ýmsir fylgikvillar með hátíðinni síðustu ár sem ég held að bæjarstjórnin, lögreglan, skátarnir á tjaldsvæðum og flestir í bænum vildu finna lausn á. Dæmi um vandamál síðustu ára eru:

  • Mikil ölvun ungs fólks
  • Talsvert um pústra og ólæti á unglingatjaldstæði við Hamra
  • Talsvert um kvartanir íbúa vegna ungs fólks sem hefur gert þarfir sínar í görðum
  • Nokkuð um tilkynningar um stolin reiðhjól og eignarspjöll
  • Fíkniefnamál og nauðgunartilraunir

Vissulega má færa fyrir því rök að ekki þurfi marga svarta sauði til þess að valda þessu en þrátt fyrir ýmsar tilraunir síðustu verslunarmannahelgar hefur ekki tekist að vinna bug á þessum vanda. Skilaboðin sem bæjaryfirvöld sendu að þessu sinni bitnuðu vissulega á öllum ungmennum á þessum aldri en líklega var bærinn bara ekki tilbúinn til þess að leggja út í þann kostnað sem aukinn gæsla hefði haft í för með sér.

Mikið væri samt gaman að ná að búa til hátíð þar sem fjölskyldur geta skemmt sér og ungt fólk líka. Fiskidagurinn er að ganga upp og þangað koma 30.000 manns en samt er enginn unglingadansleikur. En ef markmiðið á að vera að fá 5.000 ungmenni til að eyða 20.000 hvert í skemmtanir, fyllerí og tilheyrandi þá eigum við ekkert að blanda nafni Akureyrar í það mál. Vinir Akureyrar hafa haldið því fram að þeir hafi orðið af meira en 100 milljónum í tekjur af því að það komu ekki þessi 5.000 ungmenni sem þeir höfðu reiknað með. Sem sagt reiknað með að hver einstaklingur í þessum hópi myndi eyða 10.000 kalli í bjór og hammara og restinni í ný föt af því að taskan var týnd............  

Ég vildi óska þess að það hefði verið hægt að stöðva þessa óheillaþróun með öðrum hætti en kannski var þetta samt nauðsynlegt þrátt fyrir allt.

 


mbl.is Tæplega hundrað manns skrifað undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá þú gengur í Guðs hús inn....

PICT5530Líkt og á hverju sumri höfum við hjónin tekið okkur svolítin tíma í að þvælast um landið. Að þessu sinni varð fyrir valinu sumarhús á Raufarhöfn, en fyrir þá sem ekki hafa komið norður fyrir Borgarfjörð þá er Raufarhöfn lítið þorp sem stendur nyrst allra kauptúna á landinu. Við dvöldum þarna í viku og keyrðum um svæðið og skoðuðum Þórshöfn, Bakkafjörð og Vopnafjörð. Vissulega veltir maður því fyrir sér hversu margir íslendingar eða öllu heldur fáir hafa skoðað þennan hluta landsins og þó svo að hugmynd Andra Snæs um að tileinka Melrakkasléttu bókina sína um Framtíðalandið sé svolítið rómantísk þá held ég að mörgum sem þarna búa finnist sú hugmynd léttvæg í samanburði við baráttu þeirra við að draga björg í bú.

Eitt af því sem við höfum ánægju af á svona ferðalögum er að koma við í hinum fjölmörgu kirkjum sem prýða landið en því miður virðist sem þessi hús séu aðeins opin þegar þar til gerður prestur jarðsyngur einhvern eða í þau fáu skipti sem hann ákveður að tími sé fyrir guðsþjónustu. Eina kirkjan sem var ólæst var á Skeggjastað og þar fórum við inn og skoðuðum fallegt og gamalt Guðs hús. Annars þurftum við að reyna að skoða inn um glugga og hvergi var neinar upplýsingar að finna um opnunartíma eða símanúmer hjá einhverjum sem gæti sýnt okkur kirkjuna. Ég trúi ekki öðru en að á hverjum stað megi finna einstaklinga sem væru tilbúnir til að sýna ferðamönnum kirkjuna sína fyrst ekki er hægt að hafa þær opnar allan sólarhringinn.

Kirkjan á að vera opin fyrir fólki. Kirkjan á að vera griðarstaður þar sem gott er að ganga inn og finna frið frá hversdagslegu amstri. Prestarnir eru þjónar kirkjunnar og eiga að sjá til þess að þetta sé hægt. Afsakanir um að ekki sé hægt að hafa kirkjurnar alltaf opnar af því að þá þurfi svo oft að þrífa þær eða að þá þurfi stöðugt að fylgjast með að ekkert sé tekið eru afsakanir þeirra sem ekki sjá tækifærin í nýjum verkefnum.


Svar við fréttaflutningi um brunavarnir sumarbúða

Undanfarna daga hefur farið svolítið fyrir umfjöllun í fjölmiðlum um brunavarnir í sumarbúðum. Ástæðan er sú að Brunamálastofnun var að gefa út árskýrslu fyrir árið 2006 og þar koma fram upplýsingar um úttekt þeirra á stöðu brunavarna hjá 10 sumarbúðum á landinu. Þetta er í þriðja sinn á tæplega tuttugu árum sem þeir taka sumarbúðirnar sérstaklega fyrir en hlutverk Brunamálastofnunar er meðal annars að hafa eftirlit með störfum eldvarnarfulltrúa og slökkviliðsstjórum sveitarfélaganna. Þeir hafa því ekki bein samskipti við okkur og skila skýrslum til eldvarnarfulltrúa en við fáum að öllu jöfnu ekki eintak af þeim skýrslum nema við óskum sérstaklega eftir því.

Vegna stórra orða frá yfirverkfræðingi hjá Brunamálastofnun var stjórn KFUM og KFUK á Íslandi knúin til að óska eftir fundi með brunamálastjóra og eftir því sem mér skilst var sá fundur gagnlegur og í kjölfarið var birt yfirlýsing á www.kfum.is

Hvað Hólavatn snertir þá voru gerðar nokkrar athugasemdir áriið 2006 af eldvarnarfulltrúa frá Akureyri og bætt var úr öllum þeim atriðum fyrir sumarstarf 2007. Hins vegar er því ekki að neita að húsnæðið á Hólavatni stenst ekki núgildandi reglugerð að öllu leiti og snýr það aðallega að efni í klæðningum o.fl. en flóttaleiðir og eldvarnarkerfi er að sjálfsögðu í fullu samræmi við núgildandi kröfur. Þegar eldhúsið var tekið í gegn voru veggir og loft klædd með óbrennanlegri klæðningu og eldvarnarhurð sett upp svo að nú er eldhúsið sér brunahólf og er það til mikilla bóta.

Það er ekkert smá mál að bera ábyrgð á börnum annarra í nokkra daga og því tel ég að allar sumarbúðastjórnir KFUM og KFUK vilji gera það sem hægt er til að tryggja sem best öryggi þeirra sem þar dvelja.


Fyrir og Eftir myndir af Rimasíðu 2

Rimasíða 2Jæja loksins koma inn myndir sem sýna húsið okkar fyrir og eftir að við máluðum það. Þetta er búin að vera ótrúlega mikil vinna að mála eitt svona hús og Hanna er reyndar ennþá úti að klára síðustu umferð á tvo glugga. Við erum ánægðust með bílskúrshurðirnar og það verður algjör munur að ganga um skúrinn og geta bara ýtt á takka til að opna.Smile

Til að skoða myndir sem sýna húsið fyrir og eftir þarf að skoða albúmið hér til hægri á síðunni.


Ekki svo flott ef öllum finnst það!

Merkileg staðreynd hversu margir velja sér brúðkaupsdag af því að hann er flottur á boðskortinu. 07.07.07    Vá hvað þetta er flott. Mér finnst reyndar 16.04.08 rosalega flottur líka af því að sko það þarf tvo til að úr verði brúðkaup og sko tvisvar 4 eru 8 sem margfaldað með tveimur gerir 16.

 Annars held ég að margir hafi hætt við af því það kom í fréttum að svo ógeðslega margir ætluðu að gifta sig þennan dag og þá hugsa margar konur sig tvisvar um. Ég meina hvað er einstakt við brúðkaup sem er númer 6 í röðinni þann daginn? Mér finnst að það eigi að banna svona raðkvæni alveg eins og fjölkvæni er bannað.

Annars þarf ég að fara sofa en ég var úti að byrja að setja upp nýja bílskúrshurð......Svolítið erfitt verk fyrir einn mann........Svolítið stór hurð.

 Annars fer ég bráðum að birta hér myndir sem sýna húsið svona 'FYRIR' og 'EFTIR' því við erum búin að mála það í nýjum litum og svo eru hurðirnar alveg að fara smella upp.

Annars fer ég minnst einu sinni í viku fram á Hólavatn til að fylgjast með flokkunum en það hefur gengið frábærlega og veðrið verið gott og aðsóknin fín. Við erum að tala um yfir 30% aukningu á milli ára og fimm flokka og þar af tvo fullbókaða og hina ágæta.

Annars er þetta verða fínt því ANNARS þarf ég að skrifa eitthvað annað en Annars.


mbl.is Hætt við hjónavígslur 07.07.07
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyri er yndislegur bær!

Ég hugsaði til þess í gær hvað kostir þess að búa á Akureyri eru fjölmargir. Frúin fór á bílnum til vinnu og svo um hádegisbil þegar mig vantaði bílinn þá hjólaði ég í vinnuna til hennar og sótti bílinn, fór í Litaland og keypti 20 lítra af málningu og spjallaði aðeins við sölumanninn. Fór í Vífilfell til að athuga hvort bolirnir fyrir Hólavatn væru komnir og beið í góðar fimm mínútur meðan Dóri var í símanum. Fór í Bónus og verslaði inn fyrir heimilið fyrir tæpar níu þúsund krónur og var svo kominn heim einni klukkustund eftir að ég hjólaði af stað.  Já frekar ótrúlegt fyrir þann sem ekki hefur reynt þetta en ég met þennan kost mikils því tíma mínum er betur varið í svo margt annað en að keyra á milli staða.

Nú eru kannski einhver borgarbörn sem fussa yfir þessu yfirlæti norðlendingsins en í raun verður maður að vera tilbúinn til að horfa á kostina sem fylgja því að búa utan höfuðborgarsvæðisins því vissulega fylgja því líka ókostir eins og t.d. takmarkaðra atvinnuframboð. En hver þarf svo sem meiri vinnu, hee ég hef nóg að gera.............................. það eru bara launin sem vantar upp á.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband